Erlent

Fimm dýrustu bílar í heimi

Óli Tynes skrifar
Bugatti Royale Kellner Coupé frá 1931 seldist á 565 milljónir króna.
Bugatti Royale Kellner Coupé frá 1931 seldist á 565 milljónir króna.

Tímaritið Forbes hefur birt lista yfir fimm dýrustu bíla heimsins. Enginn nýr bíll er á þeim lista, heldur aðeins gamlir eðalvagnar sem hafa selst fyrir metfé á uppboðum. Efstur á þeim lista er Bugatti Royale Kellner Coupé af árgerð 1931.

Aðeins voru smíðaðir fimm bílar af þessari gerð og kaupverðið þá var tæpar þrjár milljónir króna. Árið 1987, semsagt fyrir tuttugu árum var hann seldur á uppboði fyrir 565 milljónir króna. Kaupandinn var ónafngreindur Japani.

Númer tvö í röðinni er Mercedes-Benz 38/250 SSK frá árinu 1929. Hann var á sínum tíma hraðskreiðasti sportbíll í heimi. Í september árið 2004 var einn slíkur seldur á 480 milljónir króna.

Númer þrjú er Bugatti Royale Berliner De Voyager af árgerð 1931. Hann var seldur á uppboði í Nevada árið 1986 fyrir 421 milljón króna.

Númer fjögur er Ferrari 330 TRI/LM Testarossa af árgerð 1962. Sá bíll vann Le Mans keppnina árið 1962. Hann var seldur á uppboði árið 2002 fyrir 421 milljón króna, eins og Bugatti bíllinn hér á undan.

Númer fimm er svo Ferrari P3 af árgerð 1966. Hann var seldur á uppboði í ágúst árið 2000 fyrir 363 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×