Lífið

Borguðu með perlum í stað punda

sev skrifar
Úr myndbandi Weird Girls.
Úr myndbandi Weird Girls. MYND/Hörður Ellert Ólafsson
Gengi íslensku krónunnar setti breitt og langt strik í reikninginn við tökur á nýju myndbandi við lag Emiliönu Torrini, „I've heard it all before". Gjörningahópurinn Weird Girls, undir forystu Kitty Von Sometime gerði myndbandið, en leikstjórinn, tökumaðurinn og klipparinn eru breskir.

Tökur fóru fram í sundlauginni í Hveragerði á undurfögrum sólríkum októberdegi við upphaf kreppu, og þótti myndefnið lofa sérstaklega góðu. Þegar þríeykið breska sneri aftur til Englands með afraksturinn stóðu þau þó frammi fyrir vandamáli. Klipparinn ætlaði, eins og aðrir, að gefa vinnu sína við myndbandið, en eigendur klippisvítunnar þar sem vinna átti verkið voru ekki í neinu góðgerðarstarfi. Þeir kröfuðu klipparann um leigu fyrir aðstöðuna - í pundum.

Kitty Von Sometime, hugmyndasmiðurinn á bak við Weird Girls verkefnið, segir góð ráð hafa verið dýr. „Pundið var orðið tvöfalt dýrara en þegar við sömdum um verð á svítunni, og þar að auki var vonlaust að millifæra til Bretlands," segir Kitty, sem hafði þungar áhyggjur af því að ekkert yrði af myndbandinu. Málin leystust þó farsællega, þegar klipparinn ákvað að leggja út fyrir svítunni, og þiggja greiðslu í forláta antík skartgripum.

Kitty viðurkennir að þetta hafi verið nokkuð óvenjuleg ráðstöfun, en segir lítið annað hafa verið hægt að gera í stöðunni. Hún segir myndefnið ægifagurt, og reiknar þó fastlega með að myndbandið verði fyrirhafnarinnar virði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.