Innlent

Troðfullt á borgarafundi - Ríkisstjórninni líkt við persónur úr Englum alheimsins

MYND/Björn

Troðfullt var út úr dyrum á opnum borgarfundi sem efnt var til í Iðnó í kvöld þar sem ræða átti stöðu þjóðarinnar. Mikill hiti var í fundarmönnum og púuðu þeir meðal annars á alþingismenn þegar þeir hugðust taka til máls.

Einar Már Guðmundsson rithöfundur, Björg Eva Erlendsdóttir blaðamaður, Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og Vilhjálmur Bjarnason viðskiptafræðingur héldu erindi áður en að öðrum fundargestum gafst færi á að tjá sig.

Einar gagnrýndi auðmenn og framgöngu þeirra undanfarin ár. Hann krafðist þess að eignir þeirra yrðu frystar tafarlaust. Þá krafðist hann að bankastjórar Seðlabankans, ríkisstjórnin og Fjármálaeftirlitið yrðu sett af.

Einar sagði að glæpir hefðu verið framdir með vitund stjórnmálamanna sem hefðu gefið bankanna í hendur vildarvina sinna. Um skuldir Íslendinga sagði Einar Már: ,,Við erum gíslar á lögreglustöð heimskapítalismans."

Þá líkti Einar ríkisstjórninni við persónur úr bók sinni Englum alheimsins sem fóru á Hótel Sögu og fengu sér að borða án þess að greiða reikninginn. Einar sagði að ríkisstjórnin væri ábyrgðarlaus líkt og persónurnar í bókinni. Munurinn væri aftur á móti sá að samfélagið hefði tekið af þeim ábyrgðina en ríkisstjórnin hefði verið kosin til að taka ábyrgð.

Þjóðin getur ekki beðið eins og Breiðavíkurdrengir eftir hvítbók, að mati Einars sem kallaði jafnframt eftir ábyrgð greiningardeilda bankanna sem hefðu verið á launum við ljúga.

Hægrikarlar hafa yfirgnæft allt með sinni rödd

Björg Eva sagði sagði marga vera hrædda við stöðuna. Hún sagði fólk óttast atvinnuleysi, ráðamenn í Bretlandi og stöðu krónunnar. Sjálf sagðist hún hræðast mest skipstjóra skútunnar sem væru hrokafullir. Hún sagði enn fremur að munurinn á ríkisstjórninni og útrásarvíkingunum væri sáralítill, báðir aðilar hefðu talað mikið um eigið ágæti.

Þá benti hún á að forseti lýðveldisins hefði mestar áhyggjur af unga bankafólkinu sem hefði misst vinnuna en sagði að hann mætti líta betur í kringum sig og horfa á fólk sem ynni venjuleg störf.

Enn fremur sagði Björg Eva að sömu hægrikarlarnir töluðu nú og hefðu yfirgnæft alla umræðu undanfarin ár. Fólk yrði nú að gera upp við sig á hverrn það treysti og hvort það hefði valið rétt.

Vaxtahækkkun ekki lausnin

Lilja Mósesdóttir sagði enn fremur að það væri óþolandi hvernig konum væri haldið utan umræðunnar. Enn fremur ræddi hún um skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir láni til íslenskra stjórnvalda. Þau hefðu verið kölluð aðhaldssöm stjórn peningamála sem þýddi á mannamáli vaxtahækkun.

Þetta væri dæmigert viðbragð hjá sjóðnum við fjármálakreppu. Bent hún á að norsk stjórnvöld hefðu í sinni bankakreppu á síðustu öld gripið til vaxtahækkunar sem hefði leitt til fleiri gjaldþrota og meira atvinnuleysis en ella. Malasía og Chile hefðu hins vegar valið gjaldeyrishöft með skattlagningu í stað vaxtahækkunar og það hefði leitt til grynnri kreppu.

Lilja sagði enn fremur að kreppan nú á Íslandi væri mun alvarlegri en sú sem hefði riðið yfir hin norrænu ríkin og Asíu á síðustu öld. Það sæist á því að lán alþjóðlegra aðila yrðu 60 prósent af landsframleiðslu okkar á meðan Suður-Kórea hefði á sínum tíma aðeins þurft lán sem var 10 prósent af landsframleiðslu. Sagði Lilja enn fremur að lækka þyrfti vexti til að draga úr áhrifum kreppunnar.

Þá spurði hún í hvað 700 milljarðarnir sem taka ætti að láni myndu fara og hvort til greina kæmi að nýta hluta fjárins til að afskrifa skuldir heimilanna.

Lilja sagði inngöngu í ESB ekki leysa vanda þjóðarinnar og benti á að við gætum ekki uppfyllt Maastricht-skilyrðin fyrir upptöku evrunnar þar sem skuldir okkar væru of miklar.

Kaupaukar stjórnenda um 80 milljarðar á átta árum

Vilhjálmur Bjarnason sagðist hafa um árabil fylgst með hlutabréfamarkaðnum hér á landi en markaðurinn hefði nú brugðist honum. Hann hefði mætt á hluthafafundi í 25 ár og það heyrði til undantekninga ef menn spyrðu alvöru spurninga á þeim fundum. Honum hefði leiðst þetta og því tekið upp á því að spyrja spurninga. Svörin hefðu hins vegar verið misjöfn.

Enn fremur benti hann hlutverk hluthafafunda og endurskoðunar sem eftirlitskerfis. Enginn hefði hingað til nefnt ábyrgð stjórna fjármálastofnana, endurskoðenda og innri endurskoðenda.

Vilhjálmur spurði enn fremur hvað væri búið að gera við þá peninga sem Landsbankinn hefði safnað með stofnun Icesave og taldi hann vísast að þeim hefði verið grýtt út um gluggann.

Enn fremur benti hann á að lífeyrissjóðirnir hefðu að líkindum tapað um 300-500 milljörðum á hruni kerfisins og því brygði honum þegar fólk vildi taka fleira út úr lífeyrissjóðakerfi. Varaði hann því við því að afnema verðtryggingu.

Þá kom fram í máli Vilhjálms að samkvæmt útreikningum fróðs manns hefðu kaupaukar stjórnenda fjármálafyrirtækja á síðustu 7-8 árum numið um 80 milljörðum króna, svipaðri fjárhæð og Glitnir hefði beðið um í lán frá Seðlabankanum á dögunum.

Púað á þingmann

Nokkrir fundargestir tóku til máls áður en þeir alþingismenn sem mættu á fundinn að áeggjan aðstandenda fundarins fóru upp á svið. Þegar Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var að útskýra hvers vegna farið hefði eins og það fór fyrir bönkunum var púað á hann og var fundargestum mikið niðri fyrir. Fulltrúar allra flokka mættu á fundinn, mismargir úr flokkunum þó.

 

 

 

 

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×