Formúla 1

Lokamótið auðveldara fyrir Massa en Hamilton

Felipe Massa og Rob Smedley stefna á sigur í Brasilíu um næstu helgi.
Felipe Massa og Rob Smedley stefna á sigur í Brasilíu um næstu helgi. mynd: kappakstur.is

Brasilíumaðurinn Felipe Massa telur að það verði auðveldara fyrir hann en Lewis Hamilton að ná settu marki um næstu helgi. Massa verður að sækja en Hamilton að verja sjö stiga forskot.

"Það verður erfiðara fyrir Hamilton en mig um næstu helgi. Ég þarf að stefna á sigur og vona það besta. Vissulega mun Hamilton reyna að þjarma að mér, en hann getur bara klúðrað þessu og það er meiri pressa á honum en mér", sagði Massa um mótið á heimavelli um næstu helgi.

Hamilton nægir fimmta sætið þó Massa vinni, en McLaren ætlar ekki bara að leika varnarhlutverk. McLaren gaf það út í dag að nýr afturvængur mun prýða bíl Hamilton um næstu helgi auk fleiri hluta sem eiga að gera hann hraðskreiðari.

"Við vitum mætavel að titilinn er ekki í höfn hjá McLaren, þó Hamilton sé með forskot á Massa. Við verðum að halda einbeitingu og vanda til verka í lokamótinu. Hamilton verður betri og betri með hverju mótinu og engin hefur byrjað feril sinn eins vel og hann", sagði Ron Dennis framkvæmdarstjóri McLaren.

Hamilton glopraði titilinum í lokamótinu í fyrra og var þá með sjö stiga forskot rétt eins og núna. Mótið í Brasilíu var háspennumót frá upphafi til enda, en Kimi Raikkönen varð meistari með eins stigs mun.

Ferrari varð í fyrsta og öðru sæti í Brasilíu og nokkrir ökumenn virðast styðja Massa fremur en Hamilton og spurning hvort þeir blanda sér í titilslaginn á einhvern hátt. Hamilton vann þó öruggan sigur í síðasta móti og er hvergi hræddur við lokamótið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×