Innlent

Hafnaboltakylfa og golfkylfa töldust ekki vopn

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot.

Maðurinn var ákærður ásamt öðrum fyrir bæði líkamsárás og vopnalagabrot með því að hafa við sundlaug Seltjarnarness slegið þriðja mann með golfkylfu í læri og hrint honum í jörðina og ógnað honum með hafnaboltakylfu.

Út frá framburði vitna þótti ekki sannað að maðurinn hefði verið sleginn með golfkylfunni en sá sem dæmdur var viðurkenndi að hafa sett hnéð í fórnarlambið í árásinni. Félagi hans var hins vegar sýknaður.

Þá féllst dómurinn ekki á þá túlkun að hafnaboltakylfa og golfkylfa væru vopn þótt ljóst væri að mennirnir væru ekki með kylfurnar til íþróttaiðkunar. Voru þeir því sýknaðir af ákæru um vopnalagabrot.

Maðurinn viðurkenndi tvö hraðakstursbrot og sömuleiðis vörslu lítilræðis af kannabisefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×