Lífið

Mikill missir

„Það eru bara fáir útvaldir sem fá að kveðja svona, þegar þeir eru að gera sig klára að fara á svið," segir Bubbi Morthens, samstarfsmaður Rúnars Júlíussonar til margra ára. „Auðvitað hefði ég viljað vera með Rúnari í 10-15 ár í viðbót ef heilsa hans hefði leyft, en úr því þetta þetta er orðin staðreynd, þá er miklu meiri gleði í hjarta mínu að hafa fengið að kynnast Rúnari en sorg."

Bubbi segir Rúnar hafa verið einstaklega jákvæðan mann. „Ég sá Rúnar aldrei skipta skapi, og heyrði hann aldrei segja styggðaryrði um nokkurn mann. Aldrei."

Hann segir Rúnar einn stærsta persónuleika sem Ísland hefur eignast, og missirinn sé mikill. „Hugur minn er hjá Maríu og börnunum. Þetta er mikill missir. Það er mikilvægt að hafa það hugfast að vera óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að eiga þessa vegferð með Rúnari."

Gunnar Hjálmarsson, sem ritaði bókina Saga Rokksins, segir Rúnar hafa verið einstakan tónlistamann. „Rúnar var stórkostlegur meistari. Það er allt satt sem um hann hefur verið sagt. Hann var einstakt góðmenni og ljúfmenni, töffari og rokkari. Það var algjör heiður að fá að kynnast honum og vinna með honum."

Rúnar átti að baki áratugalangan feril í tónlist og var í gegnum útgáfufyrirtæki sitt Geimstein, iðinn við að koma ungum listamönnum á framfæri. Gunnar segir hann hafa hjálpað mörgum ungum tónlistamönnum á brautinni. Hann hafi verið fyrirmynd margra, ekki síst sem manneskja.


Tengdar fréttir

Rúnar Júlíusson er látinn

Rúnar Júlíusson tónlistarmaður og útgefandi lést aðfararnótt föstudagsins 5. desember af völdum hjartaáfalls. Útgáfufyrirtæki hans Geimsteinn hélt árlega útgáfukynningu sína á veitingastaðnum Ránni fimmtudagskvöldið 4. desember þar sem listafólk útgáfunnar var saman komið. Rúnar var að fara á svið til að syngja og var að teygja sig eftir gítarnum þegar hann kenndi sér meins. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann andaðist. Guðmundur Rúnar Júlíusson fæddist í Keflavík 13. apríl 1945, sonur Júlíusar Eggertssonar múrarameistara og Guðrúnar Stefánsdóttur Bergmann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×