Innlent

Kompás í kvöld: Lögmaður hótar lögsókn

Vilhjálmur H. VIlhjálmsson.
Vilhjálmur H. VIlhjálmsson. MYND/Valgarður

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður, hefur sent fréttaskýringaþættinum Kompási bréf fyrir hönd umbjóðanda síns Björgvins Þorsteinssonar. Í bréfinu segir, að verði auglýstur Kompásþáttur sem er á dagskrá í kvöld sýndur með óbreyttu sniði, sé Björgvini nauðugur einn sá kostur að höfða skaðabótamál á hendur 365 hf.

Í þættinum sem er á dagskrá í kvöld eftir fréttir, verður sýnt frá fundi Björgvins og útsendara Kompáss sem hittu hann á kaffihúsi í Reykjavík á dögunum. Björgvin hafði auglýst eftir „viðskiptafélögum" eins og það er orðað í bréfi lögmannsins en í auglýsingunni óskaði hann eftir því að komast í samband við fólk sem væri illa statt fjárhagslega en þó ekki gjaldþrota. Fólkið átti að fá greitt fyrir að hlaða á sig skuldum og fara síðan í gjaldþrot.

Útsendarar Kompáss hittu Björgvin á kaffihúsi þar sem hann útskýrði tilboðið fyrir þeim og var fundurinn tekinn upp án vitundar hans. Vilhjálmur segir í bréfi sínu að opinber birting á efninu sé brot á grundvallarmannréttindum Björgvins og vísar hann í stjórnarkránna og Mannréttindasáttmála Evrópu máli sínu til sönnunar. Birtingin sé skýrt brot á friðhelgi einkalífs og þeirri meginreglu að hver maður eigi rétt til þess að ákveða hvar og hvenær myndefni af honum er birt.

Eftir fundinn á kaffihúsinu hitti Björgvin síðan Jóhannes Kr. Kristjánsson ritstjóra Kompáss og leggur Vilhjálmur einnig blátt bann við því að það efni verði notað í þættinum, þar sem Björgvin hafi verið fenginn í viðtalið á fölskum forsendum. Ritstjóri Kompáss hafi tjáð Björgvini að Kompás hefði fullan rétt á því að taka upp myndefni af honum til birtingar og „því væri það honum fyrir bestu að skýra frá sinni hlið málsins," segir í bréfinu.

Þá segir, að ef af birtingunni verði, sé Björgvini nauðugur einn sá kostur að höfða skaðabótamál á hendur 365.

„Af gefnu tilefni eru forsvarsmenn 365 og Kompáss enn og aftur minntir á að það er hlutverk fjölmiðla að segja fréttir en ekki búa þær til," segir að lokum í bréfinu en Vilhjálmur hefur einnig boðað málssókn á hendur Kompási fyrir að sýna frá samskiptum Benjamíns Þórs Þorgrímssonar og Ragnars Magnússonar, en þau viðskipti voru einnig tekin upp á band án vitundar Benjamíns.

Að sögn Vilhjálms verður   mál Benjamíns á hendur Kompási þingfest fimmtudaginn 18. desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×