Viðskipti innlent

Ísland á barmi gjaldþrots?

Ísland rambar á barmi þess að verða fyrsta landið til að lýsa yfir þjóðargjaldþroti. Þetta segir í frétt á forsíðu bandarísku leitarvélarinnar Yahoo.com í dag. Fréttin er frá fréttastofunni Associated Press. Þar er farið í stuttu máli yfir fjármálalífið á Íslandi og fjármálageirann, sem hafi vaxið langt út fyrir hagkerfið. Hrun hér gæti haft alvarleg keðjuverkandi áhrif víða í Evrópu enda hafi bankarnir og íslensk fyrirtæki og einstaklingar fjárfest víða í álfunni, allt frá verslunum til knattspyrnufélaga. Eftir gríðarlegan vöxt síðustu ár horfi landsmenn nú á umhverfi sitt falla saman innanfrá og geti ekkert gert til að stöðva það. Eigi margir í erfiðleikum með að taka peninga út af reikningum sínum, svo sem hjá Landsbankanum. Þá eru ónefndir þúsundir Breta sem hafi lagt sparifé sitt inn á Icesave-reikning bankans í Bretlandi. Miklar líkur eru nú á að með þjóðnýtingu Landsbankans sjái sparifjáreigendurnir peningana aldrei aftur. Sérstaklega er tekið fram að hagkerfið hafi fallið hratt saman eftir þjóðnýtinguna á Glitni í síðustu viku. Neyðarlög hafi nú verið sett, sem geri ríkinu kleift að taka yfir fleiri banka sem hafi ratað í öngstræti. Hins vegar er haft eftir Richard Portes, prófessor við London Business School í Bretlandi, að bankarnir hafi verið vel fjármagnaðir og ekki lumað á neinum af þeim eiturbréfum sem hafi komið fjármálafyrirtækjum víða um heim á kné. „Ég held það sé rangt að halda því fram að bankarnir hafi verið kærulausir. Þvert á móti. Þeir voru mjög óheppnir,“ segir hann.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×