Viðskipti erlent

Sprettur á bandarískum hlutabréfamarkaði

Gengi hlutabréfa tók almennt sprettinn á bandarískum fjármálamarkaði í dag. Stærsta þátt í hækkuninni eiga uppgjör bandaríska fjárfestingarbankans JP Morgan, gosdrykkjaframleiðandans Coke Cola og íhlutaframleiðandans Intel, fyrir fyrsta fjórðung ársins. Öll voru þau yfir væntingum. Tíðindin í uppgjörunum gerðu fjárfesta vestanhafs vongóða um að versta hríðin á fjármálamörkuðum sé yfirstaðin.

Á sama tíma rauk verð á hráolíu í rúma 115 dali á tunnu og hefur verðið á svarta gullinu aldrei verið hærra. Ástæðan fyrir verðhækkuninni er sú að olíubirgðir í Bandaríkjunum drógust saman á milli vikna, að því er fram kemur í vikulegri skýrslu bandaríska orkumálaráðuneytisins.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan hækkaði um rétt rúm tvö prósent en Nasdaq-vísitalan rauk upp um 2,8 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×