Fótbolti

Loksins sigur hjá Norrköping

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Garðar Gunnlaugsson, leikmaður Norrköping.
Garðar Gunnlaugsson, leikmaður Norrköping. Mynd/Sænska knattspyrnusambandið

Norrköping vann í dag sinn fyrsta sigur í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er liðið vann 2-0 útsigur á Ljungskile.

Kevin Amuneke og Imad Khalili skoruðu mörk Norrköping en hvorki Garðar Gunnlaugsson né Gunnar Þór Gunnarsson voru í leikmannahópi liðsins í dag.

Ólafur Ingi Skúlason er sem fyrr meiddur og var því ekki með sínum mönnum í Helsingborg sem vann 3-1 sigur á Trelleborg. Henrik Larsson skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Helsingborg strax á fjórðu mínútu.

AIK kom sér upp í annað sæti deildarinnar með 2-0 sigri á Malmö en topplið deildarinnar, Kalmar, fór í gær illa með Sigurð Jónsson og lærisveina hans í Djurgården. Kalmar vann 5-1 sigur og er með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar.

Sölvi Geir Ottesen lék fyrstu 57 mínúturnar í liði Djurgården og lagði upp eina mark liðsins.

Djurgården er nú í sjöunda sæti deildarinnar með sautján stig en Norrköping í því næstsíðasta með sjö stig. Fjölmennasta Íslendingaliðið, GIF Sundsvall, er á botninum með fimm stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×