Logi Gunnarsson, landsliðsmaður í körfubolta, er kominn heim úr atvinnumennskunni á Spáni og spilar líklega með Njarðvík í vetur.
„Ég stefni á að komast út aftur en ég mun ekki fara bara til þess að fara, ég verð að fá eitthvað tilboð sem mér líst á. Það kemur bara í ljós," sagði Logi í samtali við Stöð 2.
„Njarðvík er að sjálfsögðu númer eitt og ég er í viðræðum við Njarðvíkingana. Við erum ekki búnir að klára okkar mál en ef ég verð heima þá eru miklar líkur á að ég leiki með Njarðvík," sagði Logi.
Logi hefur leikið með Gijon frá vorinu 2007. Þar áður lék hann í Finnlandi og Þýskalandi en hann var hjá Njarðvík áður en hann hélt út.