Japanskur sérfræðingur í málefnum Norður-Kóreu segir að leiðtogi landsins, Kim Yong Il hafi látist úr sykursýki árið 2003. Leiðtogar heimsins, þar á meðal Vladimir Putin forseti Rússlands hafi undanfarin ár verið að semja við tvífara hans.
Toshimitsu Shigemura prófessor segir í nýútkominni metsölubók að Kim hafi verið mjög hræddur um að sér yrði sýnt banatilræði.
Hann hafi því þjálfað upp eina fjóra tvífara til að vera staðgenglar sínir við opinberar athafnir.
Einn þeirra hafi meira að segja gengist undir aðgerðir til þess að hann yrði sem líkastur leiðtoganum ástsæla.
Prófessorinn segir að nú sé þessum mönnum rúllað fram ef Kim þurfi að sjást opinberlega.
Ekki eru allir kollegar prófessorsins sammála honum í þessu efni. Hann gefur hinsvegar upp fjöldann allan af heimildarmönnum bæði í Norður-Kóreu sjálfri og innan leyniþjónustu Japans og Suður-Kóreu.