Körfubolti

Bárum of mikla virðingu fyrir þeim

Einar Árni Jóhannsson þjálfari Breiðabliks segir að hans menn hafi skort smá trú á sjálfa sig í fyrri hálfleiknum í kvöld þegar þeir töpuðu fyrir Grindavík í Iceland Express deildinni.

Grindvíkingar spiluðu grimma pressuvörn á löngum stundum í leiknum og kom það illa við Blikana sem lentu um það bil 20 stigum undir á kafla í fyrri hálfleik.

Heimamenn náðu af og til að minnka muninn niður í tíu stig en svo fór að lokum að suðurnesjaliðið vann öruggan sigur 79-61.

"Við vorum allt of smeykir í því sem við vorum að gera til að byrja með og smá trú hefði geta gert þetta að mun meira spennandi leik. Ég er ánægður með vörnina okkar á hálfum velli og ég held að þeir hafi skorað megnið af sínum stigum á opnum velli," sagði Einar Árni.

"Sóknarlega vorum við bara að hitta illa og ég skrifa það bara á það sama og lélega byrjun okkar - okkur vantaði bara smá trú. Menn hefðu bara mátt vera hugaðari og ráðast á pressuvörnina strax í upphafi og skora eins og við vorum að gera í síðari hálfleik. Við bárum bara of mikla virðingu fyrir þeim í upphafi - það verður bara að segjast," sagði Einar Árni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×