Bíó og sjónvarp

Mýrin vekur mikla hrifningu

erlendur í parís Andlit Ingvars Sigurðs­sonar í hlutverki Erlends hefur prýtt auglýsingaskilti í París að undanförnu.
erlendur í parís Andlit Ingvars Sigurðs­sonar í hlutverki Erlends hefur prýtt auglýsingaskilti í París að undanförnu.

Kvikmyndin Mýrin í leikstjórn Baltasars Kormáks hefur hlotið frábærar viðtökur í Bretlandi og Frakklandi að undanförnu.

Myndin var frumsýnd í Bretlandi á föstudag og var um að ræða stærstu frumsýningu á íslenskri mynd í Bretlandi frá upphafi. Hefur hún víðast hvar fengið fjórar stjörnur, þar á meðal á heimasíðum The Guardian, The Independent, The Times, Empire og Channel 4. Á kvikmyndasíðunni Rottentomatoes.com fær hún að auki 94% í einkunn af 100 mögulegum.

„Söguþráðurinn er áhugavert púsluspil sem hélt mér á sætisbrúninni til enda. Fleiri myndir um rannsóknarlögguna Erlend hljóta að vera á leiðinni,“ segir í dómi The Guardian og The Independent bætir við: „Erfiðu föðurhlutverkinu er blandað á sannfærandi hátt saman við drungann á Íslandi, söng karlakóra og fáfarna vegi. Íslenski maturinn virkar heldur ekki upp á marga fiska. Að sjá mann borða kindarhöfuð í morgunmat á seint eftir að gleymast.“

Mýrin var frumsýnd í Frakklandi á miðvikudag og telja dreifingaraðilar að aðsókn á hana fari yfir hundrað þúsund manns. Dómar um myndina þar í landi hafa verið lofsamlegir og hefur mikil umfjöllun átt sér stað um hana í öllum helstu fjölmiðlunum. Jafnframt hefur andlit Ingvars Sigurðssonar í hlutverki Erlends prýtt auglýsingaskilti í neðan­jarðar­lestakerfi Parísarborgar­ síðastliðnar vikur.

Mýrin hefur þegar verið seld til fjölda landa, þar á meðal Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Þýskalands, Ísraels og Írlands auk Norðurlandanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.