Viðskipti erlent

Samdrætti spáð í Bretlandi

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands.
Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands. Mynd/AFP

 

Miklar líkur eru á samdráttarskeiði í Bretlandi á þessu ári. Þetta kemur fram í hagspá Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

OECD spáir því að draga muni úr hagvexti í Bretlandi um 0,3 prósent á þriðja fjórðungi ársins og um 0,4 prósent á síðasta fjórðungi. Til samanburðar stóð hagvöxtur í stað í öðrum fjórðungi.

Þetta er svartsýnni spá en fram kom í hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í síðasta mánuði, að sögn breska ríkisútvarpsins. Þar var reiknað með 1,2 prósenta hagvexti á öllu þessu ári. Það er heilum 0,6 prósentustigum minna en fyrri spá hljóðaði upp á tveimur mánuðum fyrr.

Hagspáin hefur þrýst gengi breska pundsins neðar en það var í gær en það hefur ekki verið lægra gagnvart evru í tvö ár.

 

Alastair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, sagði í samtali við breska dagblaðið Guardian um helgina, að þær aðstæður sem breskt efnahagslíf stæði frammi fyrir nú væru þær vandasömustu sem efnahagslífið stæði frammi fyrir í sextíu ár. Vísaði hann þar til olíuverðshækkana síðasta ár og lánsfjárkreppunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×