Sam Mitchell, þjálfari Toronto Raptors í NBA deildinni, var í kvöld rekinn úr starfi í kjölfar 39 stiga taps liðsins gegn Denver í gærkvöld.
Mitchell var á sínu fimmta ári með Toronto og var kjörinn þjálfari ársins í NBA leiktíðina 2006-07.
Toronto var ætlað að keppa við lið eins og Boston um sigur í Austurdeildinni í vetur en 8 sigrar og 9 töp í fyrstu 17 leikjunum þóttu langt undir væntingum.
Það verður aðstoðarþjálfarinn Jay Triano sem tekur við Toronto þar til eftirmaður Mitchell finnst, en hann hefur starfað hjá félaginu í sjö ár.
Fyrsti leikur hans við stjórnvölinn verður gegn Utah Jazz á föstudagskvöld.