Erlent

Jónatan Motzfeldt segir af sér

Jónatan Motzfeldt ásamt Kristjönu Guðrúnu Guðmundsdóttur, eiginkonu sinni.
Jónatan Motzfeldt ásamt Kristjönu Guðrúnu Guðmundsdóttur, eiginkonu sinni. MYND/Morten Juhl

Jónatan Motzfeldt, formaður grænlensku landstjórnarinnar hefur sagt af sér vegna ásakana um kynferðislega áreitni. Hann neitar sök.

Það er grænlensk skrifstofustúlka hjá landstjórninni sem sakar hann um að hafa áreitt sig kynferðislega á heimili hans í apríl á síðasta ári.

Þótt hann hætti sem formaður landstjórnarinnar mun Motzfeldt halda þar sæti sínu, og einnig halda áfram sem formaður Sjálfstjórnarnefndarinnar sem nú á í viðræðum við Dani um það mál.

Í yfirlýsingu um afsögn sína sagði Motzfeldt að hann hafi hreina samvisku og að hann muni neyta allra ráða til þess að sanna sakleysi sitt.

Jónatan Motzfeldt er kvæntur íslenskri konu, Kristjönu Guðrúnu Guðmundsdóttir. Hann á fjölmarga vini á Íslandi.

Árið 2006 var hann fluttur með sjúkraflugi til Íslands með alvarlega nýrnasýkingu. Hann náði sér þó að fullu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×