Erlent

Flugmaður trylltist í 30 þúsund fetum

Óli Tynes skrifar
Boeing 767 þota Air Canada.
Boeing 767 þota Air Canada.

Farþegum í einni af flugvélum Air Canada var brugðið þegar aðstoðarflugmaðurinn var dreginn út úr flugstjórnarklefanum hrópandi hástöfum á Guð.

Aðrir áhafnarmeðlimir bundu hann á höndum og fótum og handjárnuðu hann svo ofan í sæti í farþegarýminu.

Þetta gerðist yfir Atlantshafi um síðustu helgi. Boeing 767 breiðþotan var á leið frá Toronto til Lundúna.

Um borð í vélinni voru 149 farþegar. Margir þeirra urðu óttaslegnir við ópin í flugmanninum, sem skammaðist hárri raust meðan verið var að binda hann niður. Þetta virðist hafa borið mjög brátt að.

Vélin átti rétt um klukkustundar flug eftir til Heathrow þegar aðstoðarflugmaðurinn fór að hegða sér undarlega og tala upphátt við sjálfan sig.

Svo byrjaði hann að ákalla Guð. Flugstjórinn kallaði þá aðra flugliða fram í stjórnklefann til þess að flytja hann afturí. Þeir nutu aðstoðar læknis sem var farþegi um borð.

Flugstjórinn lýsti ekki yfir neyðarástandi heldur kallaði upp Shannon flugvöll á vesturströnd Írlands og bað um sérstakt lendingarleyfi vegna veikinda um borð.

Hann hafði áður tilkynnt Shannon að starfsbróðir hans væri veikur. Vélin lenti heilu og höldnu á Shannon og aðstoðarflugmaðurinn var fluttur í sjúkrabíl á neyðarmótöku fyrir geðsjúka.

Ný áhöfn flaug svo vélinni áfram til Heathrow og lenti hún þar á mánudag, eftir átta tíma seinkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×