Innlent

Segist hafa talað kjarnyrta íslensku og vitnað í dóm Hæstaréttar

Agnes Bragadóttir
Agnes Bragadóttir

Agnes Bragadóttir segist hafa verið að tala kjarnyrta íslensku og vitna í dóm Hæstaréttar þegar hún lét ummæli falla um þingmanninn Árna Johnsen í þættinum „Í bítið á Bylgjunni" fyrir skömmu. Fram hefur komið í fréttum að Árni íhugi að fara í meiðyrðarmál vegna ummælanna og er kominn með lögfræðing í málið.

„Hann er dæmdur glæpamaður. Hann var mútuþægur, dæmdur fyrir umboðssvik í tveggja ára fangelsi og svo stígur hann fram, maðurinn sem aldrei iðraðist, hafði aldrei gert neitt rangt, upphefur sjálfan sig ..." sagði Agnes m.a á Bylgjunni. Hún bætti því síðan við að Árni væri hálfgert stórslys og ætti að hafa vit á því að halda kjafti.

Agnes var gestur í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi ásamt Sigurði G. Guðjónsson lögfræðingi. Hún sagðist hafa frétt af málinu í gær og sagði stórmerkilegt að maðurinn sem væri þekktur fyrir að heilsa að sjómannasið í Vestmannaeyjum og væri almennt ekki talin tepra hefði ekkert þýðingarmeira að hugsa um þessa dagana.

Aðspurð hvort hún hefði ekki verið nokkuð stóryrt sagði Agnes. „Já ég er það frekar þegar ég fæ tækifæri til þess að tala en þegar ég skrifa, því þá þarf ég að hemja mig. En þarna tel ég mig hafa verið að tala kjarnyrta íslensku. Það liggur fyrir með dómi Hæstaréttar fyrir hvað Árni Johnsen er dæmdur," sagði Agnes og bætti því við að hún væri einungis að vitna í þann dóm.

„Ef það eru meiðyrði að álíta það að maðurinn sé hálfgert stórslys þá sit ég bara uppi með það."

Sigurður G. Guðjónsson var spurður um álit sitt á málinu og sagði hann að sumt þarna væru gildisdómar og álit Agnesar á Árna. „Álit manna verða ekki dæmd dauð og ómerk almennt," sagði Sigurður sem taldi málið geta orðið torsótt fyrir Árna Johnsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×