Innlent

Kompásárás hefði getað leitt til heilaskaða

Maður leitaði nýlega til slysadeildar Landspítalans brotinn á fótum - að eigin sögn eftir aðfarir handrukkara með hafnarboltakylfu. Þetta segir Ófeigur Þorgeirsson yfirlæknir slysa- og bráðadeildar. Hann segir að árásin sem sýnd var í Kompási hefði getað leitt til heilaskaða.

Kompás sýndi í gær myndskeið þar sem Benjamín Þorgrímsson meintur handrukkari gengur í skrokk á Ragnari Magnússyni fyrrum veitingamanni. Benjamín hefur verið ákærður fyrir þessa árás sem telst minniháttar. Fréttastofa sýndi yfirlækni slysadeildar myndskeiðið í dag og innti hann álits á því hvaða afleiðingar árásin hefði getað haft.

Spörkin hefðu því getað leitt til heilaskaða, augnskaða og beinbrota í andliti. Þótt þetta tilvik sé talið vera vegna handrukkunar - er þetta nokkuð dæmigerð íslensk líkamsárás segir Ófeigur. Svona spörk í höfuð séu stórhættuleg.

Talið er að tugir handrukkarar séu á Íslandi en sárasjaldgæft er að fólk komi illa farið eftir handrukkun á slysadeild, segir Ófeigur.

Ragnar fullyrti í Kompási að lögreglumaður - og kunningi árásarmannsins - hafi latt hann til að kæra Benjamín við skýrslutöku. Stefán Eiríksson lögreglustjóri sagði í samtali við fréttastofu að hraði rannsóknar málsins - sem hefði nú leitt til ákæru - sýndu að þessar aðdróttanir eigi ekki við rök að styðjast.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×