Innlent

Vísar ásökunum um sviðsetningu á bug

Ritstjóri fréttaskýringaþáttarins Kompás vísar ásökunum Benjamíns Þórs Þorgrímssonar, meints handrukkara, alfarið á bug um að umdeilt myndskeið í þætti gærkvöldsins hafi verið sviðsett æsifréttamennska.

Kompásþætti gærkvöldsins birtist myndskeið þar sem Benjamín gengur í skrokk á Ragnari Magnússyni vegna peninga sem hann telur sig eiga inni hjá Ragnari. Fréttamenn Kompáss höfðu fylgt Ragnari eftir um skeið og mynduðu þennan fund þeirra síðla sumars án vitundar Benjamíns.

Benjamín sakar starfsmenn Kompáss um æsifréttamennsku í viðtali við DV í dag, leikari sé öðrum megin í atriðinu en ekki hinum megin. Benjamín segir líka í viðtalinu orðrétt: „Maðurinn var líka búinn að láta kveikja í bílnum mínum, ég meina, halló! Hvað mundi venjulegur maður gera undir þessum kringumstæðum!"

Þá telur hann líka að myndefnið hafi verið klippt til - sér í óhag, t.d. hafi ögranir Ragnars ekki komið fram. Benjamín tekur dæmi um þessar ögranir og segir orðrétt í DV: „Ragnar var búinn að segja við mig "þú ert vitleysingur" og eitthvað svona sko." Slíkar ögranir telur Benjamín að hefðu rétt hlut hans í þættinum.

Þess má geta að fram kom í upptökunni að Benjamín játar þar að hafa vísvitandi reynt að koma rangri sök á Ragnar vegna íkveikju á bíl Benjamíns í sumar. Jóhannes Kr. Kristjánsson ritstjóri Kompáss segir faglega hafa verið unnið að þættinum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×