Erlent

Fær ekki að deyja

Guðjón Helgason skrifar

Dómari í Dijon í Frakklandi hafnaði í gær kröfu frönsku kennslukonunnar Chantal Sebire um að fá að deyja með aðstoð lækna.

Sebire, sem er 52 ára og 3 barna móðir, þjáist af ólæknandi krabbameini í nefholi og hefur æxli afmyndað andlit hennar. Serbier finnur fyrir stöðugum sársauka vegna þessa. Hún sér illa og hefur misst bragð- og lyktarskyn. Hún segir börn hlaupa skelkuð frá sér sjái þau hana á götu.

Þrátt fyrir frjálslynda löggjöf Frakka um líknardráp taldi undirréttur að hún ætti ekki við í þessu máli. Frakkar hafa mikla samúð með Sebire en mál hennar hefur vakið deilur.

Sebire ætlar ekki að áfrýja dómnum og ætlar jafnvel að fara til Sviss þar sem löggjöf um líknardráp er enn frjáslyndari en í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×