Innlent

ASÍ segir málsók á HB Granda mögulega

Grétar Þorsteinsson forseti Alþýðusambandsins segir koma til greina að fara í mál við HB Granda vegna uppsagna fiskverkafólks á Akranesi. Fyrirtækið hafi í nær öllum atriðum farið á svig við lög um hópuppsagnir.

Verkalýðsfélag Akraness sakar HB Granda um að hafa ekki farið að lögum við uppsafnir 60 manna í fiskverkun fyrirtækisins á Skaganum. Það verði að öllum líkindum dómstólamál sem Alþýðusamband Íslands reki fyrir félagið.

Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda sagði í samtali við Vísi í gær að fyrirtækið hefði í einu og öllu farið að lögum við þessar uppsagnir. Það hefði bæði verið haft samráð við trúnaðarmenn og uppsagnirnar tilkynntar til Svæðisvinnumiðlunar.

Eggert bætti því við að HB Grandi og Vinnumálastofnun ætli að gera sameiginlega áætlun um endurmenntun og ráðgjöf gagnvart þeim sem missa vinnuna þegar uppsagnir starfsfólks koma til framkvæmda. Viðkomandi starfsmönnum verði veitt aðstoð við atvinnuleit, aðgengi að viðeigandi námskeiðum, gerð ferilsskrár og greiningu áhugasviðs síns. HB Grandi greiði kostnað við verkefnið og leitað verður eftir samstarfi við þá sem annast fræðslu og námskeiðahald, við verkalýðsfélög og við aðra eftir atvikum.

Grétar er ekki sammála því að HB GRandi hafi farið rétt að. Það hafi í nær öllum atriðum farið á svig við lög. Fyrirtækið sé nú fyrst að hefja ferli sem hefði átt að hefja strax í upphafi. Málssókn komi því vel til greina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×