Lífið

Einkadans fyrir þrjá dansara

Margrét Sara í verki þeirra þremenninga. Mynd Panic Productions
Margrét Sara í verki þeirra þremenninga. Mynd Panic Productions
Sviðslistahópurinn Panic Productions frumsýnir nýjasta verk sitt, Private Dancer, á stóra sviði Borgarleikhússins í kvöld.

Verkið má flokka undir dansleikhús en meðlimir hópsins búa yfir mikilli reynslu á þessu sviði. Höfundar semja verkið frá grunni og liggur að baki því mikil vinna og langur fæðingartími. Private Dancer er eftir Margréti Söru Guðjónsdóttur, Jared Gradinger og Sveinbjörgu Þórhallsdóttur og flytja þau líka verkið.

Margrét Sara og Jared hafa á síðustu árum verið meðlimir í dansleikhúsi Constönzu Macras, Dorky Park, staðsett í Schaubuehne-leikhúsinu í Berlín. Margrét Sara hefur undanfarið unnið með Ernu Ómarsdóttur og voru þær tilnefndar til Grímunnar 2007 sem bestu danshöfundar og dansarar fyrir verkið Mysteries of love. Þær vinna nú að annarri sýningu, Mysteries of love II, ásamt fleirum.

Sveinbjörg er reynslumikill danshöfundur og dansari og hefur verið kóríógrafer í mörgum sviðsuppfærslum hérlendis. Hennar nýjustu verk eru Skekkja, sem sýnt var í Borgarleikhúsinu í október í samstarfi við Íslenska dansflokkinn, og væntanleg jólasýning Þjóðleikhússins, Sumarljós. Jared er bandarískur leikari en hefur búið og starfað í Berlín um árabil og hefur fylgt Dorky Park frá upphafi og ferðast með hópnum með sýningar um allan heim. Hann er einnig listrænn stjórnandi How Do You Are Festival Les Grandes Traversees í Bordeaux.

Panic Productions er sviðslistahópur og framleiðslufyrirtæki stofnað árið 2004 af Sveinbjörgu Þórhallsdóttur og Margréti Söru Guðjónsdóttur. Meginmarkmið þeirra er að starfa og skapa með erlendum listamönnum og færa afurðina heim til Íslands sem og sýna hana erlendis. Frá stofnun hafa átta verk verið gerð í nafni Panic Productions, með ýmsum listamönnum frá ýmsum löndum.

Frumsýning á Private Dancer verður á stóra sviði Borgarleikhússins í kvöld og aðrar sýningar verða 1. og 2. nóvember. Aðeins verða þessar þrjár sýningar hér á landi. Í kjölfarið fer sýningin til Frakklands og sýnir þar á How Do You Are Festival Les Grandes Traversees í Bordeaux 30. desember Einnig eru áætlaðar sýningar í Berlín snemma á næsta ári og í Royan, Frakklandi í júní.

pbb@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.