Innlent

Beðið eftir viðbrögðum frá ríkisstjórninni

Forseti Alþýðusambands Íslands útilokar ekki að skrifað verði undir kjarasamninga í kvöld eða nótt - það verði þó aðeins gert komi viðunandi tillögur frá ríkisstjórninni. Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins funduðu framundir miðnætti í gærkvöldi og settust aftur að samningaborðinu klukkan tíu í morgun.

Á fundinum í morgun hefur einkum verið rætt um sérkröfur landssambandanna innan ASÍ. Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, sagði í samtali við fréttastofu nú laust fyrir fréttir að hann ætti von á því að mönnum tækist að hreinsa upp það sem útaf stæði í samningaviðræðunum í dag. Þá tæki hins vegar við mikil og flókin pappírsvinna sem gæti tekið allmargar klukkustundir. Ef hins vegar viðunandi tillögur bærust frá ríkisstjórninni í dag, gæti farið svo að skrifað yrði undir samningana í kvöld eða nótt. Hann sagði þó enga leið að spá fyrir um það á þessari stundu.

En ef tillögur stjórnvalda verða óviðunandi verður ekki skrifað undir neina samninga, segir Grétar, þótt allt sé klárt milli ASÍ og atvinnurekenda. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins var þó bjartsýnn eftir fund með ríkisstjórninni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×