Erlent

Geimfarar drekka endurunnið þvag

Geimskutlan lagði af stað um liðna nótt.
Geimskutlan lagði af stað um liðna nótt. MYND/AP

Á verkefnalista geimfaranna sem lögðu af stað með geimferjunni Endeavour í gær áleiðis að alþjóðlegu geimstöðinni verður að koma fyrir nýju kerfi sem endurvinnur allt vatn um borð og gerir það drykkjarhæft. Þegar talað er um allt vatn um borð er einnig átt við þvagið úr geimförunum en þeir munu í framtíðinni drekka það.

Ástæða þessa er sú að innan nokkurra ára verður geimferjunni lagt og eftirleiðis verður aðeins hægt að komast í geimstöðinna með rússnesku Soyuz flauginni. Geimferjur NASA eru þeim eiginleikum búnar að vatn verður til í rafkerfi hennar á leiðinni út í geiminn. Þetta vatn er geymt og hreinsað og hefur síðan verið notað um borð í geimstöðinni til drykkjar. Hönnun rússnesku flaugarinnar er önnur og því varð að finna upp aðferð til þess að búa til drykkjarhæft vatn um borð.

Aðalhönnuður hreinsikerfisins, Bog Bagdidian hjá NASA, segir að endurunnið þvag sé ágætt til drykkjar. „Við höfum verið að gera prófanir á vatninu á meðal starfsfólks og enginn setti mikið út á þetta. Vatnið er eiginlega alveg eins og venjulegt flöskuvatn," segir verkfræðingurinn.

Nýja tækið mun í framtíðinni geta framleitt 23 lítra af drykkjarhæfu vatni á hverjum sólarhring.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×