Innlent

Myglusveppur skildi fjölskyldu eftir eignalausa

Hjón í Hvalfjarðarsveit standa uppi slipp og snauð eftir að myglusveppur herjaði á hús þeirra og innbú. Tjónið nemur tæpum tuttugu milljónum króna en þau fá það ekki bætt þrátt fyrir að hafa talið sig vera tryggð.

Bylgja Hafþórsdóttir hefur búið ásamt sambýlismanni sínum og þremur börnum í 120 fermetra einbýlishúsi í Melahverfi í Hvalfjarðarsveit síðast liðin sjö ár. Fyrir tveimur árum fór hún að kenna sér meins, var sífellt slöpp og með kvef og missti mikið úr vinnu.

Bylgja þurfti að hætta að vinna vegna veikindanna og þrátt fyrir að hafa gengið lækna á milli var hún engu nær um hvað hrjáði hana. Fyrr en einn daginn að hún sat á biðstofu hjá tannlækni að hún gluggaði þar í vikublað og fann þar grein um myglusvepp.

Bylgja hafði samband við matsmenn og sýni voru tekin úr húsinu. Í ljós kom að í það minnsta fjórar tegundir af myglusveppum voru í húsinu sem höfðu hreiðrar um sig í skriðkjallara hússins. Byggingafræðingur tók húsið út og í ljós kom að húsbyggjandinn hafði ekki gengið rétt frá honum. Fjölskyldunni var ráðlagt að rífa húsið og henda nánast öllu innbúi þess á haugana.

Eftir stendur fjölskyldan slipp og snauð en á húsinu hvíldu 10 milljóna króna húsnæðislán sem þau þurfa að borga af. Þau eru í raun á götunni en bóndinn á Fellsenda í Hvalfjarðarsveit hefur leyft þeim að búa þar síðustu daga. Þeirra eini kostur er að reyna að byggja nýtt hús frá grunni. Brot húsbyggjandans er fyrnt og því engar líkur á að hjónin fái tjónið nokkurn tímann bætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×