Erlent

Austur­ríkis­menn slegnir ó­hug

Guðjón Helgason skrifar

Austurríkismenn eru slegnir óhug eftir að 73 ára fjölskyldufaðir játaði í morgun að hafa fangelsað dóttur sína í kjallaradýflissu í nær aldarfjórðung. Þar nauðgaði hann henni ítrekað. Stúlkan ól föður sínum sjö börn.

Josef Fritzl gekkst við glæpum sínum í morgun. Árið 1984 gabbaði hann Elísabetu dóttur sína, sem þá var 18 ára, niður í kjallarann á fjölbýlishúsinu þar sem fjölskyldan bjó. Hann gaf henni svefnlyf og handjárnaði hana. Neyddi hana svo til að skrifa fjölskyldunni bréf þar sem hún sagðist hafa hlaupist á heiman og bað um að ekki yrði leitað að sér. Josef gaf út að hún hefði líklega gengið í sértrúarsöfnuð. Sannleikurinn var þó sýnu verri. Hann hafði innréttað fangelsi í kjallaranum og falið innganginn svo vel að í 24 ár grunaði engan neitt. Lögreglan telur að eiginkona Jósefs hafi ekkert um þetta vitað.

Elísabet ól föður sínum 7 börn. Eitt dó skömmu eftir fæðingu. Þrjú voru alin upp af Josef og konu hans með skilaboðum frá Elísabetu að hún gæti ekki séð um þau - það hafði faðir hennar þvingað hana til að skrifa. Þrjú börnin máttu dúsa í dýflissunni með móður sinni.

Elsta barnið, 19 ára stúlka, veiktist illa fyrir skömmu. Josef lét sem hún hefði verið skilið meðvitundarlaus eftir í íbúð hans með skilaboðum um að hún yrði að komast undir læknishendur. Þegar lögregla lýsti eftir móðurinni með ósk um sjúkrasögu leysti Josef börn sín úr dýflissunni og þá komst allt upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×