Innlent

Eldri borgarar vilja púttvöll í stað brettagarðs

SB skrifar
Jón Kr. Óskarsson (til vinstri), formaður félags eldri borgara í Hafnarfirði.
Jón Kr. Óskarsson (til vinstri), formaður félags eldri borgara í Hafnarfirði.

Harðar deilur eru í Hafnarfirði vegna fyrirhugaðs brettagarðs sem átti að rísa á Víðistaðatúni. Félag eldri borgara í bænum vill frekar púttvöll á sama stað. Formaður félagsins segir minni læti í rólegum pútturum en ungum brettastrákum.

"Ég held það væri hógværara að hafa þarna púttvöll fyrir eldri borgara," segir Jón Kr. Óskarsson formaður félags eldri borgara í Hafnarfirði. Svæðið sem um ræðir er Unaðsdalur við Víðistaðatún."Við í félaginu starfrækjum sérstaka púttnefnd sem hefur beitt sér fyrir byggingu púttvallarins en málið gengur hægt í bæjarkerfinu."

Það eru ekki bara eldri borgarar sem eru á móti brettagarðinum. Hávær mótmæli íbúa í grennd við Unaðsdal hafa sett byggingu brettagarðsins í uppnám. Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur verið í fararbroddi þeirra sem vilja brettagarðinn.

"Vegna þessara mótmæla er brettagarður í Unaðsdalnum út af borðinu," segir hún, "…því miður. Þetta er góð hugmynd og hefur mikið forvarnargildi."

Beiðni eldri borgara um púttvöllinn situr enn föst í nefndarkerfi Hafnarfjarðarbæjar. Að sögn Jóns Kr. Óskarsson mun púttnefnd eldri borgara halda áfram að beita sér í málinu af fullum krafti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×