Erlent

Hjartaáföllum fækkaði við lýsisgjöf

Óli Tynes skrifar

Umfangsmikil rannsókn sem gerð var á hjartadeildum 357 sjúkrahúsa á Ítalíu bendir til þess að eitt hylki af Omega-3 fiskilýsi á dag gagnist hjartasjúklingum.

Rannsóknin náði til sjöþúsund hjartasjúklinga sem í fjögur ár fengu eitt lýsishylki á dag.

Helmingurinn fékk raunar plathylki. Allir sjúklingarnir fengu þar að auki hefðbundna meðferð og lyf.

Niðurstaðan var sú að þeir sem fengu alvöru Omega-3 hylki dóu síður úr hjartaáfalli. Munurinn var níu prósent. Hættan á hjartaáfalli sem ekki leiddi þó til dauða minnkaði um átta prósent.

Niðurstaða rannsóknarinnar er birt í nýjasta hefti læknaritsins The Lancet.

Danska blaðið Jyllandsposten segir frá þessu og getur þess að aðrar rannsóknir hafi leitt í ljós að lýsi sé einnig gott fyrir heilann.

Þannig hafi lýsisgjöf merkjanlega góð áhrif á börn sem haldin eru ofvirkni og athyglisbresti og eins á alzheimer sjúklinga. Þá hafi námsárangur barna batnað við lýsisgjöf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×