Lífið

Ástralar drekkja áhyggjunum í sundi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Yfirborðið rofið.
Yfirborðið rofið. MYND/Reuters

Ástralskir bankastarfsmenn fara nú nýjar leiðir til að gleyma áhyggjum og losna undan streitunni.

Hinir nýju lifnaðarhættir bankamannanna í Sydney í Ástralíu fela hreinlega í sér að drekkja áhyggjunum. En ekki á barnum. Sundlaugin er nú orðin fyrsta stoppistöðin eftir að deginum lýkur á skrifstofunni og hlaupabrautin og líkamsræktarsalurinn eru skammt undan. Þeir sem á skrifstofutíma berjast á vígvelli vísitalnanna, með fartölvum sínum og símum, heyja grimma hildi sín á milli við lok dags og keppa í sundi og hlaupi.

Matt Anderson, sem skipuleggur vikulega tvíþrautarkeppni í íþróttamiðstöð Sydney, segir aðsóknina hafa aukist um 25 prósent síðan á sama tíma í fyrra. Anderson heldur utan um keppni í fjögurra kílómetra hlaupi og 300 metra sundi og er útsýn ekki af verri endanum úr lauginni því þaðan blasir tilkomumikið nágrenni hafnarinnar í Sydney við.

Bankastarfsmenn eru nýjasti hópurinn á svæðinu en þeir hafa nú meiri frítíma en áður síðan harðna tók á dalnum. Blaðamaður Reuters hefur það eftir einum þeirra að þetta sé allt annað líf og kvíði og streita hverfi sem dögg fyrir sólu þegar glampandi yfirborð laugarinnar blasi við. Svo nú er bara að drífa sig í ræktina og líta björtum augum fram á veginn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.