Bandarískir fjárfestar hafa ekki séð það svartara í 21 ár
Gengi hlutabréfa hækkaði almennt í plús í Bandaríkjunum í dag. Fjárfestar hafa ekki séð það svartara vestanhafs í einum mánuði í 21 ár, eða síðan í október árið 1987. Dow Jones-hlutabréfavísitalan féll um 14,1 prósent í mánuðinum í heild. Hún fór lægst í 8.175 stig í mánuðinum. Hún endaði þennan arfaslaka mánuð í 1,57 prósenta plús í dag, eða 9.325 stigum. Þá hækkaði Nasdaq-vísitalan um 1,32 prósent og endaði í 1.720 stigum. Hún fór lægst í 1.505 stig í mánuðinum. Nokkar skýringar eru á hækkuninni nú, að sögn Associted Press-fréttastofunnar. Í fyrsta lagi telja flestir að söluhrinunni sé lokið auk þess þess sem líkur bendi til að fjárfestar séu nú farnir að taka hvaða fréttum sem er með meira jafnaðargeði en áður. Þannig hefðu nýjustu upplýsingar um samdrátt í einkaneyslu vestanhafs alla jafna valdið skelfingu í röðum fjárfesta. Því var ekki að skipta nú.