Sport

De La Hoya ætlar að hætta á árinu

Gulldrengurinn ætlar að kveðja með látum
Gulldrengurinn ætlar að kveðja með látum NordcPhotos/GettyImages

Margfaldi heimsmeistarinn Oscar De La Hoya hefur lýst því yfir að hann ætli að leggja hanskana á hilluna á þessu ári, en þó ekki fyrr en hann verði búinn að berjast þrisvar í viðbót.

De La Hoya er einn þekktasti hnefaleikari heimsins og hefur orðið heimsmeistari í fimm mismunandi þyngdarflokkum. Hann vill ólmur mæta Floyd Mayweather aftur áður en hann hættir.

"Ég get ekki haldið áfram að eilífu. Ég sé ekki fyrir mér að halda áfram í tvö eða þrjú ár í viðbót. Ég er búinn að hugsa mikið um þetta. Skrokkurinn er fínn ennþá og hugurinn ákafur og því held ég að nú sé rétti tíminn að nálgast. Ég vildi ekki hætta of snemma og snúa svo til baka - ég vil bara hætta með stæl," sagði "Gulldrengurinn" sem varð Ólympíumeistari árið 1992 og var án efa stærsta nafnið í hnefaleikunum af sinni kynslóð sem ekki var þungavigtarmaður.

De La Hoya mætir næst Steve Forbes þann 3. maí en stefnir svo á að berjast við Mayweather eftir það.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×