Lífið

Steinar Ísfeld er ljúfmenni

„Mér fannst þetta svolítið fyndið að þetta nafn skyldi valið, af öllum," segir Steinar Ísfeld Ómarsson, áreiðanleikasérfræðingur í álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Steinar er eini alnafni einnar siðspilltustu persónu íslenskrar sjónvarpssögu, Steinars Ísfeld í Svörtum englum.

Vinum Steinars hins reyðfirska ber saman um það að þar fari einn mesti ljúflingur síðari tíma, og hefur meira að segja verið stofnaður hópur á Facebook samskiptavefnum til að vekja athygli á þessum mun á persónuleikum nafnanna.

„Þeir eru alveg eins og svart og hvítt," segir Helgi Seljan, sjónvarpsmaður og gamall bekkjabróðir Steinars. „Hinn raunverulegi Steinar Ísfeld er mesta eðalmenni sem til er."

Steinar samsinnir því að hann eigi fátt sameiginlegt með sjónvarpspersónunni. Hann sé þó mikill bílakall og hafi því verið ánægður að nafni sinn í þáttunum sé smekkmaður á bíla, en illmennið Steinar keyrir forláta Range Rover.

Síðasta þætti Svartra engla lauk með því að Steinar lá í blóði sínu. Vinnufélagar Steinars í álverinu bíða spenntir eftir að sjá hver afdrif hans verða í lokaþættinum næsta sunnudag. Sjálfur er Steinar vongóður fyrir hönd nafna síns. „Ég held ég hafi þetta af."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.