Íslenski boltinn

FH komið í fjórðungsúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tryggvi Guðmundsson, leikmaður bikarmeistara FH.
Tryggvi Guðmundsson, leikmaður bikarmeistara FH. Mynd/E. Stefán
FH vann í dag stórsigur á Leikni í A-deild Lengjubikarkeppni karla, 7-1, og tryggði sér þar með sæti í fjórðungsúrslitum keppninnar.

FH er þar með komið með tólf stig en liðið hefur unnið alla fjóra leiki sína til þessa, rétt eins og KR. Þessi lið mætast laugardaginn 12. apríl í lokaumferð riðlakeppninnar.

Fram kemur á fótbolti.net að Tryggvi Guðmundsson skorði þrennu í leiknum en hin mörk FH skoruðu Björn Daníel Sverrisson, Atli Viðar Björnsson, Bjarki Gunnlaugsson og Hjörtur Logi Valgarðsson.

Ólafur Hrannar Kristjánsson skoraði mark Leiknis og minnkaði þá muninn í 2-1.

A-deildinni er skipt í fjóra riðla og tvö efstu liðin komast áfram úr hverjum riðli í fjórðungsúrslitin.

Í A-riðli hafa þegar Valur og Breiðablik tryggt sér sæti í fjórðungsúrslitunum, rétt eins og FH og KR í B-riðli.

Spennan er meiri í C-riðli en þar er Fram eina ósigraða liðið með sjö stig eftir þrjá leiki. ÍA er með sex, KA fjögur og Haukar þrjú en síðastnefnda liðið hefur aðeins leikið tvö leiki. Þróttur eru svo í fimmta sæti með þrjú stig.

HK er komið áfram úr D-riðli en Keflavík og Fjarðabyggð berjast um annað sætið í riðlinum. Þar standa Keflvíkingar betur að vígi þar sem liðið er með níu stig en Fjarðabyggð sex.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×