Tónlist

Dikta fær aðstoð frá Svíþjóð

Rokksveitin gefur út nýtt lag á næstunni sem nefnist Let Go.
MYND/ANTON
Rokksveitin gefur út nýtt lag á næstunni sem nefnist Let Go. MYND/ANTON

Rokkararnir í Diktu eru að ljúka upptökum á nýju lagi, Let Go, sem fer líklega í spilun í byrjun desember. Fylgir það eftir vinsældum, Just Getting Started, sem kom út í sumar og fór á toppinn bæði hjá Rás 2 og X-inu.

Svínn Jens Bogren mun hljóðblanda og leggja lokahönd á laginu en hann var upptökustjóri nýjustu plötu sænsku þungarokkssveitarinnar Opeth sem hefur getið sér gott orð að undanförnu.

Bæði Let Go og Just Getting Started verða á næstu plötu Diktu sem er væntanleg eftir áramót. Dikta hafði stefnt á að fara í tónleikaferð til Bandaríkjanna á næstunni og taka plötuna síðan upp á vormánuðum. Þá kom babb í bátinn. „Þau plön eru farin að snúast í höndunum á okkur því gengið er orðið tvöfalt," segir Haukur Heiðar Hauksson, söngvari Diktu.

Sveitin fékk góðar viðtökur á Airwaves-hátíðinni í síðasta mánuði og varpaði á tónleikum sínum á breiðtjald samsettri mynd af Gordon Brown með Ísland í heljargreipum. Vakti það mikla athygli tónleikagesta. „Eftir tónleikana voru margir ánægðir með þetta en nú er búið að leysa það mál. Við fáum bara alla skuldasúpuna," segir Haukur.

- fb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×