Körfubolti

Toppslagur í Grindavík í kvöld

Grindvíkingar töpuðu fyrsta leik sínum í síðustu umferð
Grindvíkingar töpuðu fyrsta leik sínum í síðustu umferð Mynd/BB

Sjöunda umferðin í Iceland Express deild karla í körfubolta hefst í kvöld með þremur leikjum, sem allir hefjast klukkan 19:15.

Stórleikur kvöldsins er grannaslagur Grindavíkur og Keflavíkur í Grindavík, en liðin eru í öðru og þriðja sæti deildarinnar.

Grindvíkingar hafa aðeins tapað einum leik í deildinni til þessa en það var gegn KR í síðustu umferð. Liðið endurheimtir í kvöld leikstjórnandann Arnar Frey Jónsson sem tók út bann gegn KR.

Keflvíkingar hafa unnið tvo síðustu leiki sína (FSu og Snæfell) síðan þeir fengu stóran skell á heimavelli gegn Blikum þann 31. október.

FSu tekur í kvöld á móti Breiðablik í Iðunni á Selfossi. FSu tapaði síðasta leik sínum gegn Keflavík og Blikar töpuðu síðasta leik sínum naumlega á heimavelli þegar þeir lágu fyrir Snæfelli í framlengdum leik.

Loks tekur Stjarnan á móti KR í Ásgarði þar sem Stjörnumenn munu leitast við að rétta úr kútnum eftir tap fyrir Þórsurum í síðasta leik. Stjarnan verður án miðherjans Fannars Helgasonar sem tekur út leikbann. KR hefur unnið alla sex leiki sína til þessa í deildinni og er á toppnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×