Erlent

Stökk í fallhlíf Da Vincis

Óli Tynes skrifar

Svissneskur fallhlífastökkvari hefur stokkið í fallhlíf sem Leonardo Da Vinci teiknaði fyrir meira en fimmhundruð árum. Þetta er í fyrsta skipti sem slík tilraun heppnast.

Olivier Vietti-Teppa stökk úr þyrlu í rúmlega 2000 feta hæð. Fallhlífin opnaðist í um 1800 feta hæð og Vietti-Teppa lenti mjúklega. Da Vinci hannaði þessa fallhlíf árið 1485.

Hún er gerð úr fjórum sjö metra síðum þríhyrningum með moskítónet við botn píramídans til að opna hana.

Ekki er hægt að stýra henni eins og nútíma fallhlíf, en Vietti-Teppa segir að hann hafi lent nákvæmlega þar sem hann vildi.

Breskur maður gerði tilraun til að stökkva í svona fallhlíf fyrir átta árum. Hann varð hinsvegar að grípa til varafallhlífarinnar þegar allt fór í flækju hjá honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×