Erlent

Hætta á að 69 stíflur bresti

Guðjón Helgason skrifar

Nær 70 stíflur á hamfarasvæðinu í suðvestur Kína gætu brostið vegna jarðhræringa þar síðasta hálfa mánuðinn. 70 þúsund hús hrundu í öflugum eftirskjálfta á svæðinu í morgun.

Á morgun er hálfum mánuður frá því jarðskjálfti upp á 7,9 á Richter skók Sichuan-hérað og varð tugum þúsunda að bana. Síðan þá hafa orðið fjölmargir eftirskjálftar. Sá sem varð í morgun mældist 5,8 á Richter og er einn sá öflugasti sem orðið hefur. Vitað er að minnst einn fórst í honum og um 400 slösuðust, þar af margir lífshættulega.

70 þúsund hús munu hafa hrunið í jarðhræringunum í morgun. Eftirskjálftans varð vart í Peking, sem er í nærri 1500 kílómetra fjarlægð frá hamfarasvæðinu. Hús hristust þar.

Björgunarmenn gera sér nú litlar vonir um að finna nokkurn á lífi í rústum húsa í héraðinu. 80 ára hálf lömuðum manni var þó bjargað í fyrradag en hann hafði legið grafinn undir braki í rúma 11 sólahringa. Kona mannsins hélt í honum lífi með mat og drykkjum sem hún kom til hans í gegnum gat sem hún fann á rústunum.

Ráðuneyti vatnsmála í Kína segir hættu á flóðum á svæðinu. E Jing Ping, aðstoðarráðherra, segir hættu á að 69 stíflur bresti. Hann lagði þó áherslu á að þær væru ekki byrjaðar að bresta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×