Enski boltinn

Mourinho: Sheva var ofdekraður hjá Milan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Shevchenko og Mourinho takast í hendur í september í fyrra.
Shevchenko og Mourinho takast í hendur í september í fyrra. Nordic Photos / Getty Images

Jose Mourinho telur að ástæðan fyrir því að Andriy Shevchenko náði sér aldrei á strik hjá Chelsea er sú að hann hafi verið ofdekraður hjá AC Milan.

„Hann var eins og prins hjá Milan og okkar stefna hjá Chelsea var öðruvísi - það voru engir prinsar hjá okkur. Allir þurftu að vinna jafn mikið fyrir hlutunum og sanna að viðkomandi ætti heima í liðinu," sagði Mourinho.

Mourinho var við stjórnvölinn hjá Chelsea þegar Shevchenko var keyptur árið 2006. Hann er nú tekinn við Inter, erkifjendum AC Milan en Shevchenko gekk aftur til liðs við sitt gamla félag á mánudaginn.

„Sannleikurinn er sá að ég hef aldrei átt í neinum vandræðum með Shevchenko og ég óska honum alls hins besta," sagði Mourinho. „Ég held að hann eigi aftur eftir að verða leikmaður í hæsta gæðaflokki."

Shevchenko virðist einnig vera sáttur við Mourinho. „Ég vona að honum gangi vel hjá Inter eins og alls staðar annars staðar þar sem hann hefur verið. Hann veit hvað hann vill fá sem þjálfari."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×