Viðskipti erlent

Hráolíuverðið lækkaði hratt í dag

Olíuborpallur í Norðursjó.
Olíuborpallur í Norðursjó.

Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði um fjóra dali á tunnu í dag eftir að bandaríska orkumálaráðuneytið greindi frá því að olíubirgðir vestanhafs hefðu aukist á milli vikna. Þetta kom markaðsaðilum á óvart enda höfðu þeir reiknað með frekari samdrætti.

Aukningin þykír vísbending um að hægja sé á hjólum efnahagslífsins vestanhafs og kaupi neytendur nú minni olíu en áður, að sögn Bloomberg-fréttaveitunnar. Samdrátturinn nemur tveimur prósentum síðasliðna fjóra mánuði miðað við sama tíma í fyrra.

Í vikulegri skýrslu bandaríska orkumálaráðuneytisins kemur fram að olíubirgðir hafi aukist um 2,95 milljónir tunna á milli vikna og nemi þær nú 296,9 milljónum tunna.

Þetta er þvert á spár enda hafði verið reiknað með að birgðastaðan myndi versna um allt að 2,2 milljónir tunna.

Verð á hráolíu sem afhent verður í næsta mánuði lækkaði um þrjú prósent og stendur olíutunnan því í 134,6 dölum. Í síðustu viku fór olíuverðið í methæðir, 147,27 dali á tunnu, að sögn Bloomberg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×