Innlent

Eldsneytisverð gæti lækkað í dag

Stóru olíufélögin, Olís, Skeljungur og N1 íhuga nú hvort lækka skuli verð á eldsneyti í dag. Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði um 6 dollara tunnan í gær sem er ein mesta lækkun í 17 ár. Fulltrúar stóru olíufélaganna sögðu við Vísi í dag að þróun gengismarkaða myndi ráða miklu um það hvort lækkunin skili sér til neytenda.

Magnús Ásgeirsson hjá N1 segir að heimsmarkaðsverð hafi lækkað mikið í síðustu viku en hún hafi öll gengið til baka á skömmum tíma. Því verði að bíða og sjá að hve miklu leyti þessi lækkun haldist.

Már Erlingsson, innkaupastjóri hjá Skeljungi, segist vera að fara yfir forsendur og fara yfir gengismarkaðinn. Að óbreyttu megi búast við verðlækkunum í dag og tekin verði ákvörðun um það þegar líður á daginn hversu mikil lækkunin verði.

Hjá Olís fengust þær fregnir að ástandið væri erfitt. Verðið hafi sveiflast nokkuð undanfarið og að það væri í sífelldri skoðun. Olís hækkaði verðið nokkuð síðastliðinn mánudag en að sögn hafði fyrirtækið haldið í sér í nokkurn tíma að hækka verðið. Hins vegar verður tekið tillit til verðlækkananna á heimsmarkaðsverði og „ef aðrir lækka þá munum við einnig lækka" sagði talsmaður Olís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×