Tónlist

Samdi lagið Þú og ég fyrir gamla vinnuveitandann

Freyr Gígja Gunnarsson skrifar
Tónlistarmaðurinn KK er með mörg járn í eldinum um þessar mundir.
Tónlistarmaðurinn KK er með mörg járn í eldinum um þessar mundir.
KK er með mörg járn í eldinum um þessar mundir. Hann á nýtt lag í auglýsingu fyrir SS og fyrsta plata hans í sex ár með eigin efni kemur út í október. Auk þess kennir hann á böskaranámskeiði á Skagaströnd um næstu helgi.

KK segist margoft hafa verið beðinn um að selja lög sín í auglýsingar en aldrei látið eftir fyrr en nú. „Það var auglýsingaskrifstofa sem hringdi í mig og bað um lagið Ég fann ást til að nota í SS-auglýsingu. Ég hef spilað það í brúðkaupum og afmælum og á þetta lag eiginlega ekkert, þannig að ég gat það bara ekki,“ segir KK.

SS gafst ekki upp því aftur var haft samband við KK og hann beðinn um að semja nýtt lag í staðinn. „Sem unglingur þá vann ég hjá þeim og sagðist skyldu reyna það. Ég var svo ánægður með það að ég er að spekulera í að hafa það á plötunni. Það er mikið af fólki búið að hafa samband og spyrja á hvaða plötu það sé. Ég segi að það sé ekki á neinni plötu, ekki enn þá,“ segir hann og kímir. Lagið nefnist Þú og ég og er ekta KK-lag ef svo má segja.

Auglýsingar á gráu svæðiMegas var nýverið gagnrýndur fyrir að selja lag sitt í Toyota-auglýsingu og KK játar að tónlistarmenn sem selji lög sín í auglýsingar séu á gráu svæði. „Ef ég væri með boðskap í tónlistinni minni sem væri á móti því að fólk væri að borða kjöt væri það hallærislegt. En ég er alls ekkert á móti fyrirtæki eins og SS. Það er eitt af þessum fáu gömlu íslensku fyrirtækjum sem eru eftir og er partur af jólunum, páskunum, næturlífinu og bara öllu,“ segir hann og bætir við í léttum dúr: „Ef ég hefði sagt já við öll skiptin sem ég hef verið beðinn um lög í auglýsingar þá væru þeir að vinna hjá mér.“

Konungur böskarannaKK er þessa dagana að leggja lokahönd á fyrstu plötu sína með eigin efni í sex ár. Sú hefur fengið nafnið Svona eru menn og hefur að geyma blússkotið efni í bland við þjóðlagatónlist í anda Crosby, Stills & Nash með gítar og munnhörpu.

Áður en hún kemur út ætlar KK að kenna á götuspilaranámskeiði á Kántrídögum á Skagaströnd helgina 14. til 16. ágúst. Honum til halds og trausts verður Leo Gillespie, konungur böskaranna, að sögn KK. „Þetta er maður sem á hvergi heima nema þar sem hann leggur hattinn sinn. Það er ekki til meiri böskari en hann,“ segir hann. Saman ætla þeir félagar því að kynna sögu og leyndardóma böskaranna fyrir Íslendingum. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á síðunni www.skagastrond.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.