Körfubolti

Valur tekur við Njarðvík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Valur Ingimundarson, verðandi þjálfari Njarðvíkur.
Valur Ingimundarson, verðandi þjálfari Njarðvíkur.

Valur Ingimundarson mun taka við þjálfun Njarðvíkur í efstu deild karla í körfubolta en þetta staðfesti hann í samtali við Vísi í dag.

Valur mun skrifa undir samninginn í kvöld en ekki er enn ljóst hversu langur samningurinn verður. Hann þjálfaði síðast Skallagrím en var í fríi frá körfuboltanum í vetur.

„Það var mjög þægilegt," sagði Valur. „Það þurfti mikið til að fá mig aftur í körfuna og finnst mér þetta mjög spennandi og verðugt verkefni sem er framundan í Njarðvík. Ég gat ekki skorast undan þessari áskorun."

Þetta er í þriðja sinn sem Valur tekur við þjálfun Njarðvíkur en þjálfaði liðið fyrst árin 1987 og 1988 og svo aftur 1994 og 1995. Auk þess lék hann lengst af með Njarðvíkurliðinu.

Njarðvík hefur misst nokkra leikmenn frá síðasta tímabili en Valur kveðst engar áhyggjur hafa af leikmannamálum. „Brenton Birmingham og Guðmundur Jónsson eru farnir og þá gætu nokkrir leikmenn verið á leið erlendis í nám. En annars þekki ég voðalega lítið til liðsins eins og er. Ég mun nú mæta í mína vinnu og gera það sem ég þarf að gera."

Yngri bróðir Vals, Sigurður Ingimundarson, er þjálfari Íslandsmeistaraliðs Keflavíkur en þeir bræður hafa aldrei þjálfað í Reykjanesbæ á sama tíma.

„Það var reyndar eitthvað sem ég ætlaði aldrei að gera. En við erum það miklir vinir og höfum aldrei látið körfuboltann koma upp á milli okkar. Ég hef engar áhyggjur af þessu enda tek ég yfirleitt ekki körfuboltann með mér heim."

Hann neitar þó ekki að það gæti verið gaman að skáka yngri bróður. „Auðvitað væri það skemmtilegt. En þeir eru Íslandsmeistarar og staðan önnur hjá þeim en okkur sem stendur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×