Erlent

Frakkar vilja hækka styrki til sjávarútvegs

Óli Tynes skrifar

Frakkar ætla að leggja til að reglum Evrópusambandsins um ríkisstyrki verði breytt til þess að hægt verði að hjálpa fiskimönnum að standa af sér hækkanir á eldsneyti. Franskir fiskimenn hafa undanfarið truflað umferð bæði á landi og sjó, til að mótmæla olíuverði. Það hefur hækkað um 30 prósent á fjórum mánuðum.

Ítalir og hugsanlega Spánverjar munu styðja breytingatillögur Frakka. Þær ganga út á að hækka þá upphæð sem ríkisstjórnir mega veita sjávarútveginum án þess að lenda upp á kant við samkeppniseftirlitið í Brussel.

Ljóst er þó að ekki munu allir á bandi Frakka. Jamie Silva sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Portúgals segir að ekki sé hægt að komast hjá olíuverðinu með sértækum aðgerðum sem ekki leysi grundvallarvandamálið.

Hátt eldsneytisverð komi niður á öllum; bændum, fiskimönnum, iðnaði og almenningi. Fólk verði að laga sig að vandanum og auka samkeppnishæfni sína. Hægt sé að endurbæta bátana og skjóta fleiri stoðum undir rekstur þeirra.

Ekki bara veiða fisk heldur auka verðmæti hans og selja eftir öðrum leiðum. Það segir Silva að sé leiðin til þess að auka samkeppnishæfni greinarinnar. Niðurgreiðslur séu það ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×