Innlent

Unglingar verið til vandræða upp á síðkastið

Egill Pálsson, verslunarstjóri í 10-11 í Grímsbæ segir unglinga hafa verið með ólæti og vesen í búðinni um nokkurn tíma. Á myndbandasíðunni youtube.com er myndskeið sem sýnir lögreglumann taka ungling í búðinni kverkataki en atvikið átti sér stað í gærkvöldi. Egill segist ekki vita hvort um sé að ræða sömu unglinga og verið hafa til vandræða undanfarið.

„Þessi aldur hefur verið til vandræða í töluverðan tíma, 13 - 14 ára strákar sem koma hingað og slæpast. Ég var búinn að tækla það mál sjálfur með því að hafa samband við móður stráksins sem hagaði sér verst. Ég veit að hann var ekki þarna í gærkvöldi, en það kemur bara maður í manns stað," segir Egill.

Hann segir unglingana hafa verið með læti í sameigninni undanfarið og að vanalega hafi verið hringt á lögreglu. „Svipað dæmi kom upp um helgina en ég get ekkert fullyrt um hverja var að ræða í gærkvöldi. Þetta gerist oft á vorin og sumrin, nú eru skólarnir að klárast og eirðarleysið virðist fara svona í þessa stráka," segir Egill Pálsson, verslunarstjóri í 10-11 í Grímsbæ.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×