Íslenski boltinn

Guðmundur Benediktsson aftur í KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Benediktsson í leik með Val í sumar.
Guðmundur Benediktsson í leik með Val í sumar. Mynd/Daníel

Guðmundur Benediktsson hefur ákveðið að ganga aftur til liðs við KR eftir að hafa verið í herbúðum Vals undanfarin fjögur ár.

Þetta staðfesti Guðmundur í samtali við Vísi. „Þessi möguleiki kom upp fyrir skömmu og leist mér mjög vel á að klára minn feril hjá KR. Það er farið að síga á síðari hlutann á mínum ferli og verður því að teljast að næsta ár verði mitt síðasta. Það mætti því segja að ég sé kominn heim."

Guðmundur var í tíu ár hjá KR þar sem hann lék 128 deildarleiki og skoraði í þeim 39 mörk. Hann gekk svo til liðs við Val fyrir tímabilið 2005 og varð Íslandsmeistari með félaginu í fyrra. Hann lék sautján leiki með Val í sumar og skoraði í þeim tvö mörk.

„Það var að sjálfsögðu erfitt að yfirgefa Val þar sem ég hef átt mjög góð ár. Þar er mikið af góðu fólki og ég er stoltur af því að hafa átt þátt í því að koma Val aftur í hóp bestu liða landsins. Ég kveð Valsmenn vonandi í góðu."

Hann segir enn fremur að hann sé ekki síður kominn í KR en að vinna Íslandsmeistaratitilinn.

„Ég man ekki eftir öðru hjá KR frá mínum tíu árum þar að þar hafi það ávallt verið á dagskrá að vinna titilinn. Það er allavega á minni dagskrá."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×