Fótbolti

AC Milan á toppinn á Ítalíu

Kaka misnotaði vítaspyrnu í gær en Milan náði samt í sigur
Kaka misnotaði vítaspyrnu í gær en Milan náði samt í sigur NordicPhotos/GettyImages

Stjörnulið AC Milan komst í gærkvöld á toppinn í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í fyrsta skipti í vetur eftir 1-0 sigur á Napoli á heimavelli. Gestirnir voru lengi aðeins með 10 menn á vellinum eftir brottvísun í fyrri hálfleik.

Brasilíumaðurinn Kaka fór illa að ráði sínu og lét verja frá sér vítaspyrnu og þurftu heimamenn sjálfsmark Argentínumannsins German Denis fjórum mínútum fyrir leikslok til að tryggja sér sigurinn. Hann skallaði aukaspyrnu Ronaldinho í eigið net.

Milan komst með sigrinum einu stigi upp fyrir Udinese og Inter, en Udinese varð að gera sér að góðu 2-2 jafntefli við Genoa á heimavelli. Inter lagði botnlið Reggina 3-2 á laugardaginn.

Milan hefur 22 stig á toppnum, Udinese og Inter 21 stig, Napoli 20 og Lazio hefur hlotið 19 stig og situr í fimmta sætinu - einu stigi á undan Juventus sem er í sjötta..






Fleiri fréttir

Sjá meira


×