Lífið

Ókeypis skemmtun á fyrsta vetrardag

Fríar ferðir verða í Viðey á laugardaginn.
Fríar ferðir verða í Viðey á laugardaginn.
Reykjavíkurborg lætur ekki sitt eftir liggja til að gleðja borgarbúa á þessum síðustu og verstu. Borgin ætlar að fagna vetri á morgun og bjóða upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Frítt verður í allar sundlaugar borgarinnar, skautasvellin í Laugardal og Egilshöll og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Þá verður spennandi dagskrá á hinum ýmsu söfnum, auk þess sem fríar ferðir verða til Viðeyjar allan daginn.

Ýmislegt skemmtilegt verður í boði.

Á Árbæjarsafni verður sýningin „Komdu að leika", þar sem gestir geta leikið sér með leikföng 20. aldarinnar. Eftir leikinn reiðir smurbrauðsdrottningin Marentza Poulsen fram ljúffengar pönnukökur og heitt súkkulaði, ásamt öðru þjóðlegu meðlæti í Dillonshúsi. Í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum verður líka boðið upp á súkkulaði með rjóma, og geta borgarbúar fylgst með fóðrun dýranna og mjöltum, og börnin geta brugðið sér á hestbak.

Í skautahöllinni í Laugardal verður ABBA „skate-along" á milli 13 og 17, og í Egilshöll verður dúndrandi diskó á svellinu. Á Kjarvalsstöðum verður ratleikur og listasmiðja, ásamt því sem Englakór Nataliu Chow flytur lög sem koma öllum í gott skap.

Fjöldi annarra viðburða verða á morgun, en dagskrána í heild er hægt að nálgast á heimasíðu Reykjavíkurborgar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.