Erlent

Áfengisneysla stóreykur hættu á brjóstakrabbameini

Nú bandarísk rannsókn sýnir að jafnvel lítil áfengisdrykkja eykur mjög hættuna á brjóstkrabbameini hjá miðaldra og eldri konum.

Þessi rannsókn byggir á upplýsingum frá meir en 184.000 konum og þykja niðurstöður hennar því áreiðanlegar. Í ljós kom að jafnvel aðeins eitt til tvö glös af léttu víni á dag jók hættuna á brjóstakrabba um 32% hjá konum sem komnar eru yfir tíðahvörf sín. Og ef áfengisneyslan er meiri en tvö glös af léttu víni á dag eykst hættan um yfir 50%.

Rannsóknin var unnin á vegum Krabbameinsstofnunar Bandaríkjanna. Jasmine Lew talsmaður stofnunarinnar segir að áfengistegundir skipti engu máli hvað varðar hættuna á brjóstakrabba.

Brjóstakrabbi er næst algengasta dánarorsök kvenna í heiminum, aðeins lungnakrabbamein banar fleirum. Áætlað er að um 1,2 milljónir kvenna muni greinast með brjóstakrabbamein í ár og að um hálf milljón þeirra muni látast af þessum sjúkdómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×